Hvernig kemur Esjan undan vetri?

Hvað sem öðru líður þá er vorið framundan og Esjan enn á sýnum stað og eins og venjulega fyrstu vikuna í apríl þá kemur hér hinn árlegi samanburður á snjóalögum í Esju sem felst í myndatöku af fjallinu til að bera saman við fyrri ár. Miðað við mörg fyrri ár þá virðist ekki vera mikill snjór í Esjunni enda hefur verið nokkuð milt síðustu tvo mánuði. Sjálfir vetrarskaflarnir eru allavega ekki miklir en í efri hlíðum eru svo einnig leifar af ört minnkandi snjó sem féll þarna dagana á undan. Með venjulegu sumri er sæmilega líklegt að þetta hverfi allt í haust.

Athyglisvert er að Esjan náði að vera alveg snjólaus í lok sumars frá Reykjavík séð fyrstu 10 ár aldarinnar. Árin 2011 og 2012 var það svona meira á mörkunum. Eftir það var það ekki fyrr en sumarið 2019 sem snjórinn hvarf algerlega, og svo aftur 2023.

Esjuskafl 15sept2025Í fyrrahaust hurfu allir hefðbundnir skaflar. Hinsvegar var smá ísklumpur eftir í giljunum neðan við Gunnlaugsskarð sem varð sífellt illgreinanlegri frá borginni séð uns ómögulegt var að koma auga á hann jafnvel með sjónauka, og þar með ætti skilyrðum sem miðast við snjólausa Esju frá borginni séð að vera fullnægt. Mér finnst ekki ólíklegt að þessi klumpur hafi horfið að lokum þótt vissulega hafi fjallgöngumenn náð myndum af því pínulitla sem eftir var um miðjan október. Sjálfur tók ég meðfylgjandi mynd þann 15. september.

Að þessu sinni birti ég myndir síðustu fimm ára og síðan þriðja hvert ár aftur til ársins 2006. Alla seríuna má síðan sjá í Esju-myndalbúmi hér til hliðar eða á slóðinni: https://emilhannes.blog.is/album/esjusnjor_i_april/

Esja_4april2025_1500px

Esja 1april2024 1500px

Esja 6. april 2023

Esja 6. apríl 2022

Esja 6. apríl 2021

Esja 6. apríl 2018

Esja 1. apríl 2015

Esja 2. apríl 2012

Esja 3. apríl 2009

Esja 1. apríl 2006


Mánaðarhitinn 2024 í súluriti

Eins og komið hefur fram var nýliðið ár það kaldasta hér á landi það sem af er öldinni. Svipuð ár hitafarslega komu upp undir lok síðustu aldar en til að finna umtalsvert kaldara ár þarf að fara aftur til ársins 1995. Þegar þetta er skrifað er ekki búið að gefa út meðalhitann fyrir Reykjavík, en þar sem ég fylgist ágætlega með hitafarinu, þá fæ ég út að meðalhitinn hafi verið 4,3 stig hér á bæ sem einmitt er það lægsta frá 1995 þegar meðalhitinn var 3,8 stig. Nú vill svo til að þessi tala 4,3 er sú sama og meðalhitinn var í Reykjavík á 30 ára tímabilinu 1961-1990 sem var nokkuð kalt tímabil, en var þó notað til viðmiðunar þar til núverandi og öllu hlýrra viðmiðunartímabil (1991-2020) tók við með meðalhitann 5,1 stig.

Meðalhiti 2024

Á súluritinu hér að ofan má sjá meðalhita mánaðanna í Reykjavík árið 2024 (rauðar súlur) og til samanburðar meðalhita mánaðanna á 30 ára viðmiðunartímabilinu 1991-2020. Lengst til hægri er hitasamanburður ársins 2024 og 30 ára meðalhitans. Eins og sést voru 10 mánuðir ársins undir meðalhitanum en tveir mánuðir, mars og maí, voru yfir meðallagi. Ekki munar þó miklu í maí. Þannig er því síðustu sjö mánuðir undir meðalhitanum sem nú er miðað við. Spurning hvað gerist með nýjum mánuði og á nýju ári. Akkúrat núna er útlitið næstu daga ekki gæfulegt, hvað sem síðar verður.

Og hvað veldur? Ekki getur við kennt um hnattrænni kólnun því þetta mun hafa verið hlýjasta árið á jörðinni frá upphafi mælinga. Ekki var Norður-Atlantshafssjórinn kaldur. Yfirborðssjórinn hefur reyndar verið með allra hlýjasta móti, enginn kaldur blettur suður-undan landinu og golfstraumurinn í fullu fjöri. Nærtækasta og eðlilegasta skýringin hlýtur því bara vera sú að við höfum verið óheppin með uppruna loftsins sem hingað hefur leitað. Hlýja loftið hefur einfaldlega ekki hitt nógu oft á landið á meðan kalda loftið hefur átt óvenju greiðan aðgang að okkur. Allavega þá skiptir öllu varðandi hitafar t.d. að vetralagi hvort loftið sem hingað leitar sé komið frá norður-heimskautinu eða norður-Afríku. Við upplifðum muninn t.d. í nóvember þegar fyrri hluti mánaðarins einkenndist af mjög svo suðlægu hlýju lofti, sem við þurftum að greiða til baka seinni hlutann með frostköldu heimskatalofti. Þessu stjórna jú hæðarsvæðin, skotvindarnir og þar með lægðarbrautirnar. Ekki fengum við heldur hlýja Evrópuloftið til okkar í sumar eins og stundum áður, en sátum frekar uppi með lægðarganginn og útsynninginn frá kaldari svæðum í vestri og norðankalsann inn á milli.

Það má svo velta fyrir sér hvort kalda loftið sé bara svona almennt að ná yfirhöndinni yfir landinu og verði svo næstu árin, eða nógu lengi til að valda kælingu í hafinu sem aftur hefði áhrif til lengri tíma kælingar. Er maður þá farinn að nálgast tal um 30 ára kuldaskeið eins og maður ólst reyndar upp við sjálfur.

En svo er það bara með blessað veðrið og hitafarið. Við vitum ekkert hvað bíður okkar.

 

 


Hversu slæmt var sumarið í Reykjavík?

Já það er víst engum blöðum um það að fletta að sumarið, sem hér telst til mánaðanna júní til ágúst, var ekkert gæðasumar hér í Reykjavík sem og víðast hvar á landinu. En til að fá samanburð við fyrri sumur þá kemur hér sumareinkunn mín, sem er unnin upp úr mínum eigin veðurskráningum sem staðið hafa frá árinu 1986. Einkunnin að þessu sinni er ekki nema 4,10 stig sem hreinlega er lægsta sumareinkunn frá upphafi skráninga - ásamt sumrinu 1989. Litlu munar þó á nýliðnu sumri og nokkrum öðrum misheppnuðum sumrum, svo sem árin 1988, 1992, 1995, 2013 og 2018. Samanburðinn má annars sjá á súluritinu hér að neðan. 

Sumareinkunn86-24

Ég er vissulega ekki einn um að gera svona gæðasamanburð því Trausti Jónsson hefur einnig birt sína sumareinkunnin á síðunni sinni, Hungurdiskum, þar sem sumarið fékk einnig falleinkunn en var þó eitthvað skárra í samanburði við fyrri sumur.  Aðferðirnar eru annars ólíkar. Hjá mér er einkunnin fengin með daglegum skráningum á veðurþáttunum fjórum, sól, úrkomu, hita og vindi, þar sem hver dagur fær sína einkunn. Út frá henni síðan er hægt að reikna mánaðareinkunn og sjálfa sumareinkunnina, sem er meðaleinkunn allra daga sumarsins.

Til viðmiðunar má nefna að meðaleinkunn allra skráðra sumarmánaða er um 4,75 stig. Allt þar fyrir ofan er því nokkuð gott og mjög gott ef sumareinkunn nær 5 stigum eins og gerðist flest sumur á gæðatímabilinu 2007 til 2012. Sumarið 2012 státar af bestu einkunninni en svo kom bakslagið mikla 2013. Eftir það hafa sumrin verið góð og slæm, og allt þar á milli. 

Það sem helst fór með þetta sumar í Reykjavík var kannski ekki endilega sólarleysi því hún lét nú alveg sjá sig inn á milli. Hinsvegar var alger skortur á hlýjum dögum og sumarið kalt og óstöðugt. Í samræmi við það var loftþrýstingur óvenju lágur enda sveimuðu þrálátar lægðir kringum landið nánast allt sumarið og beindu hingað lofti af köldum uppruna. Við fórum allavega alveg á mis við það hlýja loft sem nægt framboð er annars af í kringum okkur.  Af mánuðunum þremur fékk júní lægstu einkunnina 3,9 en þar kemur reyndar við sögu norðanhretið mikla í upphafi mánaðarins sem gaf kaldan, leiðindastrekking hér borginni í annars þurru veðri. Júlí fékk síðan 4,0 en sá mikli sumarleyfismánuður var bara ansi dapur að öllu leyti. Skásti mánuðurinn var ágúst, sem fékk 4,4. Hann státaði af sæmilegum hlýindum fyrstu dagana áður en kólnaði á ný, en átti samt nokkra sæmilega sólardaga. 

Svo má jú alveg deila um hvað sé gott veður og hvað ekki. Fólk má alveg hafa mismundandi skoðanir á því. Það má líka hafa alla fyrirvara á aðferðarfræði og svo er alveg áskorun að halda matinu óbreyttu því aðgangur veðurupplýsinga hefur ekki verið alltaf verið sá sami. Má líka koma því að, að allan júlímánuð 1989 var ég staddur víðsfjarri í Kúbanskri hitasvækju og fékk staðgengil til að skrá veðrið heima á meðan. Sá mánuður fékk algera botneinkunn, 3,5, sem vó þyngst í falleinkunn þess sumars, auk þess að vera versta einkunn sumarmánaða í mínum veðurbókum, ásamt reyndar júní 1988. Hvort tveggja mánuður frá því snemma í veðurskráningum mínum. Ég var hinsvegar ekki farinn að skrá veðrið hrakviðrasumarið 1983 en prófaði á sínum tíma að meta það út frá gögnum Veðurstofunnar og fékk einkunnina 3,5 en neðar verður varla komist.


Hvernig kemur Esjan undan vetri?

Nú er komið að hinum árlega samanburði á snjóalögum í Esju sem felst í myndatöku af Esjunni þegar skyggni leyfir fyrstu dagana í apríl og bera saman við sambærilegar myndir fyrri ára. Frá árinu 2013 hafa Esjuskaflar séðir frá borginni verið nokkuð lífseigir og haldið velli flest ár en hurfu þó með öllu sumarið 2019 og svo einnig í fyrra, sumarið 2023. Hinsvegar hurfu allir skaflar fyrsta áratug þessarar aldar og er það lengsta slíka tímabil sem vitað er um.

Myndin í ár var tekin á köldum og björtum norðanáttardegi 1. apríl sem bar upp á annan í páskum. Staðan á snjóalögum að þessu sinni er með nokkuð eðlilegu móti sem þýðir að sumarið þarf að vera frekar hlýtt og sólríkt til að sjórinn hverfi, öfugt við öllu óvinsælli þungbúna, kalda og þurra daga sem hægja á snjóbráðnun. Það þurfti minna til í fyrra þegar skaflar voru mun minni eftir þurran vetur en líka kaldan, sem sýnir að það er ekki bara kuldar sem ráða snjóalögum – hér sunnan heiða allavega.

Fyrst og fremst er það langi skaflinn í Gunnlaugsskarði sem er þrálátur og lifir af sumrin, en svo er skaflinn í skálinni vestan við Kerhólakamb (vinstra megin á myndinni) sem er alltaf furðu þrautseigur miðað við stærð.

Að þessu sinni birti ég myndir síðustu þriggja ára og einnig annað hvert ár aftur til ársins 2006. Alla seríuna má síðan sjá í Esju-myndalbúmi hér til hliðar eða á slóðinni: https://emilhannes.blog.is/album/esjusnjor_i_april/

ATH. Sé bloggfærslan skoðuð í síma er betra að snúa honum á hlið svo myndirnar birtist heilar.

Esja 1. april 2024

Esja 6. april 2023

Esja 6. apríl 2022

Esja 9. apríl 2020

Esja 6. apríl 2018

Esja 4. apríl 2016

Esja 3. apríl 2014

Esja 2. apríl 2012

Esja 1. april 2010

Esja 6. apríl 2008


Veðurannáll 2019-2022

Fyrir nokkrum árum birti ég hér blogginu einskonar veðurannála sem voru byggðir á eigin veðurskráningum auk ýmissa upplýsinga af veðurstofuvefnum. Árin hafa liðið og komið að framhaldi og eins og áður tek ég fjögur ár fyrir í einu eða tímabilið 2019-2022. Í yfirlitinu er stiklað mjög á stóru og er miðað að mestu út frá Reykjavík enda er það mitt heimapláss. Eitt og annað í víðara samhengi er þó nefnt þegar ástæða er til.

Gos_21mars_2021

Ekki var vetrarlegt um að litast á upphafsdögum gossins í Geldingadölum sem er einn af þeim atburðum sem settu mark sitt á tímabilið. Myndin er tekin 21. mars 2021.


Um tímabilið 2019-2020 má almennt segja að það hafi byrjað með mildri veðráttu og yfirleitt hagstæðu ástandi innan lands og utan. Ferðamenn streymdu til landsins sem aldrei fyrr og landsmenn flykktust út að sama skapi. Atvinnuástand var gott og verðbólga og vextir í lágmarki. Heimsmálin voru líka í ágætis skorðum og jörðin undir okkur nokkuð stöðug. Svo fór ýmislegt óvænt að gerast. Fyrst skal nefna Covid-19 heimsfaraldurinn sem barst til landsins í lok febrúar 2020 með tilheyrandi röskunum og takmörkununum og var mál málanna hér heima og erlendis um tveggja ára skeið. Þegar það ástand var loks að baki snemma árs 2022 réðust Rússar til innrásar í Úkraínu og settu þar með heimsmálin alveg úr skorðum þótt “aðgerðin” hafi ekki gengið samkvæmt plani því enn var barist í lok árs og friður ekki í augsýn. Hér heima fór Reykjanesskaginn að hrista upp í tilverunni með öflugum jarðskjálftahrinum og landrisi samfara kvikusöfnun nálægt Grindavík. Svo fór að það gaus á skaganum eftir 800 alda hvíld. Nema hvað gosin sem komu upp við Fagradalsfjall í mars 2021 og svo aftur í ágúst 2022 reyndust vera hin hin saklausustu og bestu túristagos.

Árið 2019 var sannarlega eitt af þessum hlýju árum sem komið hafa hér á landi á þessari öld en sérstaklega var þá hlýtt og sólríkt suðvestanlands. Meðalhitinn í Reykjavík var 5,8 stig sem er það fjórða hlýjasta á öldinni og í sjöunda sæti frá upphafi mælinga. Alla vetrarmánuði ársins var meðalhitinn yfir frostmarki en þó gerði almennilegan vetrarkafla upp úr miðjum janúar sem lauk með miklu þrumuveðri í borginni að kvöldi 21. febrúar. Þá tóku við mjög breytileg veður þar til í apríl sem einkenndist af hlýjum suðaustanáttum og varð apríl sá hlýjasti í borginni og víðar frá upphafi mælinga og náði hitinn í Reykjavík upp í 17 stig síðasta daginn. Einstakan sólskinskafla gerði í Reykjavík frá 22. maí til 18. júní en þá daga má segja að sól hafi skinið nánast samfleytt með smá uppábrotum. Þótt dregið hafi eitthvað fyrir sólu í júlí þá varð mánuðurinn hlýjasti júlí sem mælst hefur í Reykjavík og hlýjasti mánuður sem þar hefur yfirleitt mælst, 13,4 stig. Áfram var nokkuð gott suðvestanlands í ágúst en síðra norðaustanlands þar til fór að rigna af ákafa í september en við tóku breytileg veður með frekar þurrum nóvember. Snjórinn lét svo sjá sig í umhleypingasömum desembermánuði og dagana 10.-11. des. gerði ansi slæman norðanhvell með allskyns sköðum víða og röskunum.

Árið 2020 var meðalhitinn í Reykjavík 5,1 stig sem er í lægri kantinum miðað við það sem af er öldinni en þó í meðallagi miðað við nýtt 30 ára viðmiðunartímabil 1991-2020. Reyndar var þetta ár að mestu í meðallagi suðvestanlands og almennt öfgalaust í veðri. Samt nokkuð vel sloppið því árið var mjög úrkomusamt norðan- og austanlands. Fyrstu mánuðina var nokkuð umhleypingasamt í borginni, og þótt ekki hafi verið mikil frost þá lá oftar en ekki einhver snjór á jörðu langt fram í mars. Veðrið var þó ekki aðalumræðuefnið þarna seinni hluta vetrar því skollinn var á Covid-faraldur sem bregðast þurfti við. Ágætlega hlýtt var hinsvegar um vorið og fram í júní, en í júlí urðu norðanáttir ofaná með ágætu sólarveðri sunnan heiða þótt hitinn væri ekki mikill. Eftir rigningarkafla suðvestanlands fyrri partinn í ágúst komu loks bestu dagar sumarsins með góðum hita og bjartviðri. Fátt markvert gerðist í Reykjavík um haustið, það kom eins og venjulega en lítið var um snjó fram að jólum en eftir sunnanrigningu á aðfangadag náðu þau að vera hvít að kvöldi. Hinsvegar gerði í desember miklar rigningar norðan- og austanlands með illskæðum skriðuföllum á Seyðisfirði eftir miklar stórrigningar þar.

Árið 2021 var meðalhitinn í Reykjavík 5,4 stig sem er við meðallag það sem af er öldinni. Veðurfar var nokkuð þægilegt fyrstu mánuðina. Janúar var reyndar í kaldari kantinum en febrúar og mars voru hlýir. Mjög snjólétt var suðvestanlands og lítil úrkoma sem kom sér vel fyrir alla þá gosþyrstu sem lögðu leið sína að Geldingadölum í byrjun mars og næstu mánuðina á eftir. Vormánuðirnir voru hinsvegar kaldari en áfram var lítil úrkoma suðvestanlands og fór gróður víða að brenna samfara miklum sólskinskafla fyrri hlutann í maí. Sumarhitar létu bíða eftir sér framan af og var júní kaldur. Smám saman rættist úr og var ágúst mjög hlýr á landinu öllu. Sá næsthlýjasti í Reykjavík og víða sá hlýjasti frá upphafi mælinga auk þess að vera með þeim allra sólríkustu norðaustanlands, á meðan sólin lét minna sjá sig sunnan heiða. Eins og oft vill verða fór veðrið að versna með haustinu með ýmsum illviðrum úr flestum áttum og fengu norðlendingar þá helst að kenna á úrkomunni. Þetta jafnaði sig þegar leið að vetrinum og endaði árið á þægilegum nótum fyrir utan endurnýjaða skjálftahrinu á Reykjanesskaganum. Jú, og svo var auðvitað alltaf eitthvað Covid.

Árið 2022 var meðalhitinn 5,1 stig eins og hann var árið 2020 en samt öllu viðburðarríkara. Árið hófst með illviðrasömum janúar en þó sæmilega hlýjum. Febrúar var talsvert kaldari og mjög snjóþungur á landinu, ekki síst í höfuðborginni með tilheyrandi ófærð dögum saman. Aftur hlýnaði í mars en þá gerði miklar rigningar og varð þetta úrkomumesti marsmánuður í Reykjavík frá upphafi mælinga. Allt mildaðist þetta með vorinu sem ekki þurfti að kvarta mikið yfir. Júní slapp fyrir horn að mestu en júlí stóð ekki alveg undir væntingum og var í kaldari kantinum á landinu og auk þess frekar sólarlítill í Reykjavík. Áfram var frekar svalt í ágúst en sólin skein þó eitthvað meira í borginni. September var síðan nokkuð góður og sólríkur, sérstaklega norðanlands en þó gerði illilegt óveður seint í mánuðinum með húsatjóni á austfjörðum. Síðan kólnaði og að þessu sinni var október kaldari en nóvember sem var reyndar óvenju hlýr og sumstaðar sá hlýjasti sem mælst hefur. En ekki entust hlýindin og fallið var mikið því desember einkenndist af óvenjumiklum kuldum og frostum á landinu. Í Reykjavík var þetta meira að segja kaldasti desember síðan 1916 en í leiðinni sá sólríkasti frá upphafi mælinga. Ekkert snjóaði þó í Reykjavík fyrr en um miðjan mánuð þegar gerði talsverða ofankomu og varð þar með alhvítt út árið með viðbótum um jól og áramót.

Jarðhræringar og eldgos. Ég hef komið aðeins inn á atburðina á Reykjanesskaganum hér á undan. Þeir atburðir byrjuðu í raun með skjálftum norður af Grindavík undir lok janúar 2020 samhliða landrisi vegna kvikusöfnunar við Grindavík. Það voru mikil tímamót sem gátu boðað nýtt skeið eldvirkni á skaganum. Öflugri skjálftar gerðu síðan vart við sig. Þann 12. mars 2020 var skjálfti upp á 5,2 við Fagradalsfjall og annar álíka 19. júlí á sömu slóðum. Vestan Kleifarvatns mældist svo 5,6 stiga skjálfti þann 20. október. Mikil hrina fór síðan í gang í kjölfar skjálfta upp á 5,7 stig við Fagradalsfjall þann 24. febrúar 2021 og héldu skjálftarnir áfram þangað til gos hófst í Geldingadölum að kvöldi 19. mars. Þrátt fyrir smæð gossins í upphafi þá lauk því ekki fyrr en 18. september án þess þó að valda tjóni. Aftur fór jörð að skjálfa seinni hlutann í desember en ekkert varð úr gosi þá. Í lok júlí 2022 hófst ný og öflug hrina við Fagradalsfjall og norður af Grindavík sem endaði í gosi í Merardölum þann 3. ágúst og stóð það í 18 daga. Ekkert tjón varð frekar en í fyrra gosinu og rann hraun að mestu yfir hraun frá árinu áður. Þetta þótti allt vel sloppið miðað við hvað hefði getað gerst. En var þetta allt og sumt eða voru stærri atburðir í bígerð?

Næsti fjögurra ára annáll verður væntanlega birtur hér snemma árs 2027. Best að lofa ekki nákvæmri tímasetningu eins og síðast því eiginlega átti þessi annáll að fara í loftið á tiltekinni mínútu fyrir rúmu ári. En líklega voru þó ekki mjög margir að bíða.

Annáll 2019-22 hiti

Annáll 2019-22 einkunn

 

Fyrri annálar:
Veðurannáll 1987-1990
Veðurannáll 1991-1994
Veðurannáll 1995-1998 - Umskipti
Veðurannáll 1999-2002
Veðurannáll 2003-2006 - Hlýindi og góðæri
Veðurannáll 2007-2010 - Hrun og meiri hlýindi

Veðurannáll 2011-2014 - Misgóð tíð
Veðurannáll 2015-2018 - Hitasveiflur á uppgangstímum

 


Heimshitinn og El Nino

Nú er enn einn loftslagsráðstefnan haldin í heiminum og sýnist þar sitt hverjum. Fer ekki nánar út í það enda ekki beint efni þessa pistils. Hinsvegar er engum blöðum um það að fletta að hiti jarðar er nú í allra hæstu hæðum. Það gildir um yfirborðshitann almennt, bæði á sjó og á landi en einnig í neðri hluta lofthjúpsins eins og kemur fram á myndinni hér að neðan sem sýnir hita lofthjúpsins skv. gervihnattamælingum á vegum háskólans í Huntsville Alabama (UAH) sem ná aftur til ársins 1979. Sá mikli hitatoppur sem nú kemur fram hefur staðið í þrjá mánuði og er um 0,9°C yfir viðmiðunartímabilinu 1991-2020. Þessi mikli hitatoppur er örugglega tímabundið ástand eins og aðrir snarpir hitatoppar og helsta ástæðan er eins og áður, El Nino í Kyrrahafinu, en væntanlega eitthvað meira. Meira um þetta neðan myndar.

UAH-ENSO–Nov2023

Neðri hluti myndarinnar sýnir hvenær hið hlýja El Ninjo ástand og andstæðan, hið kalda La Nina ástand, hafa skipst á að ráða ríkjum í Kyrrahafinu. Fyrri met-toppar í hnatthita hafa fylgt í kjölfarið á mjög öflugu El Nino ástandi, sérstaklega árin 1998 og 2016. Hið óvenjulega núna er að hiti jarðar skv. þessu hefur nú þegar skotist vel upp fyrir fyrri met og það þrátt fyrir að El Nino hefur ekki náð sínum toppi og reyndar ekki alveg víst að sá toppur verði eitthvað óvenju mikill.

Ýmislegt hefur verið nefnt sem hjálpar hitanum að ná þessum hæðum núna. Ég giska á að þar skipti mestu að yfirborðhiti sjávar er í hlýjum fasa mun víðar en í Kyrrahafinu, t.d. hér í Atlantshafinu. Núverandi sólblettasveifla hefur verið að ná sér á strik, en er þó alls ekki öflugri en venjulega, nema þá kannski miðað við fyrri væntingar. Svo hefur verið talað um neðansjávargosið mikla við Tonga í ársbyrjun 2021 sem þeytti ókjörum af vatngufu upp í andrúmloftið - hefur kannski haft sitt að segja en ber varla aðalábyrgð á toppnum næstum tveimur árum seinna.

Hvað sem veldur þessum hita núna þá má fullyrða að frávikið mun jafna sig á ný. En væntanlega ekki alveg því eftir því sem tíminn líður, og þrátt fyrir mörg bakslög, þá er leið hitans upp á við. Það er að hlýna. Reiknuð hlýnun miðað við þessar gervihnattamælingar er 0,14°C á áratug, sem þýðir 1,4°C á öld. Hér á moggablogginu er kannski ekki vinsælt að kenna um auknum útblæstri koltvísýrings og það er ekki heldur vinsælt meðal olíufursta. Skýringar aðrar en aukin gróðurhúsaáhrif af mannavöldum eru samt vandfundnar.

Enda þetta á korti sem sýnir yfirborðshita heimshafanna sem frávik frá meðalhita (1971-2000). Merki þar inn El Nino.

Hitafrávik heimshafanna nóv. 2023

 

Heimildir:
ClimateReanalyzer.org
www.drroyspencer.com - UAH Satellite-Based Temperature
www.cpc.ncep.noaa.gov - ENSO


Hafísstaðan á pólunum

Samkvæmt venju nú í seinni hluta september fer ég yfir hafísstöðuna í máli og myndum en árlegt hafíslágmark er nú að baki á Norður-Íshafinu enda sólin farin að lækka mjög á lofti þar norðurfrá og brátt mun allt frjósa á ný. Að lokum mun ég snúa mér aðeins að Suðurhvelinu þar sem sitthvað er að gerast.

Arctic 23.sept

Þannig lítur Norður-Íshafið út að lokinni sumarbráðnun, samkvæmt korti útgefnu af Háskólanum í Bremen. Ísinn hefur hörfað langt frá ströndum Alaska og austur-Síberíu og bæði norðvestur- og norðaustur-strandleiðirnar færar. Þetta hefur verið nokkuð dæmigerð staða í sumarlok síðustu ára, en sennilega er ísinn minni en venjulega við Kanadísku heimskautaeyjarnar enda alls ekki árvisst að siglingaleiðin opnist þar svona rækilega.

En þá er komið að samanburði við síðustu ár með línuritinu hér að neðan sem ég vann upp úr tölum frá Bandarísku snjó- og hafísmiðstöðinni (NSIDC).

NH-Lágmörk 2000-2023

Við sjáum hér hvernig lágmarksútbreiðslan hefur þróast frá árinu 2000. Greinilega hefur hafísinn minnkað frá upphafi tímabilsins. Úr því að vera kringum 6 milljón ferkílómetrar og niður í svona 4,5 m.km2 að jafnaði. Þetta gerist þó ekki jafnt og þétt og reyndar ekki hægt að tala um einhverja sérstaka þróun frá árinu 2007 sem var tímamótaár og vakti upp vangaveldur um að stutt gæti verið í allsherjarhrun ísbreiðunnar. Ísinn jafnaði sig þó eitthvað á ný uns nýtt og mjög afgerandi metlágmark leit dagsins ljós árið 2012 og þótti síður en svo gæfulegt. En ísinn jafnaði sig aftur og hafa lágmörkin verið upp og ofan síðan og ekki ógnað metinu. Að þessu sinni varð lágmarkið það 6. lægsta sem vitað er um, en það munar reyndar mjög litlu á því og árunum 2007, 2016 og 2019 sem eru í 3-5. sæti.

Til að átta sig aðeins á árstíðastöðunni þá kemur hér línurit frá NSIDC sem sýnir í einskonar spagettíflækju öll árin frá upphafi nákvæmra mælinga árið 1979.

NH 1979-2023

Árið 2023 er dregið sérstaklega fram þarna með smá fikti í mér, en það má taka fram að öll árin eftir 2001 eru með lágmarksútbreiðslu undir 6 millj.km2. Þarna sést að vetrarútbreiðsla ársins 2023 var með allra lægsta móti en gaf eftir í samkeppninni á vormánuðum og endar sem fyrr segir með 6. lægstu útbreiðsluna. Doppótta línan er 2012 og spurning hversu lengi það lágmarksmet mun standa.

En þótt metin láti á sér standa á Norðurhveli þá er alls ekki sömu sögu að segja á Suðurhveli og læt ég samskonar spagettímáltíð segja þá sögu:

SH 1979-2023

Þarna á Suðurhveli er greinilega eitthvað óvenjulegt að gerast. Við sjáum að þar er vetrarhámark að baki (væntanlega) og árið 2023 sker sig rækilega frá öðrum árum hvað útbreiðslu varðar. Árið byrjað með heldur minni hafís en áður hafði mælst og setti nýtt lágmarksmet, en fyrra met var þá reyndar aðeins ársgamalt. Árið missti forystuna seint í mars en frá maímánuði var nýmyndun vetraríss öllu hægari en áður hefur sést og endar í hámarki sem er í algeru lágmarki.

Hvað gerist á næstu misserum á pólunum, miðað við fyrri ár, vitum við ekki og allra síst ég. Þetta með suðurskautið er sérstakt og gerist á sama tíma og óvenju hár yfirborðshiti mælist í Norður-Atlantshafi og heitur El Ninjo er að ná sér á strik í Kyrrahafinu. Kannski mun Norður-Íshafið einnig finna fyrir þessum óvenjulegheitum um síðir, eða alls ekki. Látum það bara koma í ljós.

Sjá nánar hér þaðan sem upplýsingar línurit og tölur eru fengnar: https://nsidc.org/arcticseaicenews/


Gosgleði við Fagradalsfjall

Keilir og gos

Best að byrja á að nefna hér að eldsumbrot á Reykjanesskaga hafa löngum verið eitt af því sem ég hef innst inni haft löngun til að upplifa í þessu annars takmarkaða jarðlífi. Lengst af var ég þó mjög hæfilega bjartsýnn á að sú ósk rættist en vissi þó að möguleikinn væri til staðar enda Reykjanesskaginn nokkurn veginn kominn á tíma. Það hefði samt getað þýtt að atburðir gæti farið að gerast seint á þessari öld eða jafnvel ekki fyrr en á þeirri næstu. Vissulega var mér ljóst að eldar á skaganum gætu valdið margháttuðu tjóni og sett ýmislegt úr skorðum sem ég er ekkert að vonast eftir. Það breytti þó ekki upplifunaróskum mínum enda hafa þær engin áhrif á framgang mála. Snýst meira um hjá mér að upplifa merka atburði.

En svo var það í janúar árið 2020 að fréttir fóru berast sem gáfu til kynna að möguleikinn væri ekki svo fjarlægur. Vísbendingar voru þá um að jarðskjálftar á skaganum tengdust kvikusöfnun við Þorbjörn. Eitthvað sem maður hafði ekki heyrt áður nefnt með jafn sterkum hætti, en fram að því höfðu skjálftahrinur á skaganum ávallt verið tengdar eðlilegum gliðnunarhreyfingum án þess að kvika kæmi við sögu. Þetta þótti mér aldeilis tíðindi og eitthvað til að fylgjast með, samanber stuttaralega fb-færslu frá þeim tíma.

Frétt kvikusöfnun

Rúmu ári síðar eða 19. mars 2021, eftir ótal jarðskjálfta, fór loksins að gjósa og það var nú aldeilis skemmtilegt gos þótt það hafi í raun verið alveg fáránlega lítið til að byrja með. En ólíkt öðrum gosum á Ísland þá færðist það í aukana eftir því sem á leið og stóð í sex mánuði með allskonar skemmtilegum og óvæntum uppákomum - og olli engu tjóni þegar til kom. Ekki nóg með það því gos númer tvö hófst svo þann 3. ágúst 2022 en stóð yfir í mun styttri tíma.

Geldingadalir 21. mars 2021

Þriðja gosið stendur nú yfir og eftir viku eldsumbrot sér ekki fyrir endann á því. Alls heimsótti ég sjö sinnum fyrsta gosið og tvisvar það næsta. Nálgaðist ég þau úr ýmsum áttum og fór gjarnan mínar eigin leiðir, opinberar og óopinberar. Í einni ferðinni í fyrsta gosinu munaði litlu að ég rambaði á týndan Ameríkana sem mikið var leitað að einn daginn, en hann fannst stutt frá þar sem ég var að þvælast norðaustur af gosslóðunum, ekki fjarri þar sem hraun rennur nú.

Nú er ég ekki búinn að heimsækja þetta nýjasta gos, enda hafa gosstöðvarnar verið lokaðar almenningi síðustu daga. Þar á undan hafði ein leið verið leyfð - einmitt í gegnum eiturgufurnar af gosinu og sinueldum, í eindreginni norðanáttinni. Ég ætla svo sem ekki að fjargviðrast mikið yfir þessum lokunum, en vitaskuld hefði ég tekið mið af aðstæðum og farið mína eigin leið. Sjáum til síðar. Allavega er ég nú þegar aldeilis búinn að upplifa eldgos í nærmynd þarna á skaganum. Nú læt ég mér nægja vefmyndavél ofan af Litla-Hrút. Sjónarspilið er mikið, útsýnið gott en auðvitað væri ég til í vera þarna sjálfur í stúkusæti.

 

Vefmyndavél RUV 16. júlí 2023


Hvernig kemur Esjan undan vetri?

Samkvæmt rótgróinni venju er komið að hinum árlega samanburði á snjóalögum í Esju sem felst í myndatöku af Esjunni þegar skyggni leyfir fyrstu dagana í apríl og bera saman við sambærilegar myndir fyrri ára. Frá því árið 2013 hafa Esjuskaflar séðir frá borginni verið nokkuð lífseigir og haldið velli öll árin nema árið 2019. Hinsvegar hurfu allir skaflar fyrsta áratug þessarar aldar og er það lengsta slíka tímabil sem vitað er um.

Nú ber svo við að þrátt fyrir kaldan vetur þá eru Esjuskaflar með minnsta móti núna í aprílbyrjun, sem minnir á að kuldar og snjóþyngsli fara ekki alltaf saman enda er kaldasta norðanáttin gjarnan þurr og björt hér sunnan heiða. Veturinn fór seint af stað með hlýjum nóvember fór ekki að snjóa í fjallinu fyrr en um miðjan desember. Nokkuð bættist við í janúar en blautir hlýindadagar í febrúar áttu eftir að herja mjög á það sem þá hafði safnast fyrir. Ekki gerði marsmánuður mikið því hann var nánast úrkomulaus samhliða björtu frostaveðri.

Hvort snjórinn hverfur að þessu sinni kallar á nokkur spurningarmerki að venju. Fyrst og fremst er það skaflinn í Gunnlaugsskarði sem er þrálátur (þarna ofan við vinstra skiltið á myndunum). Skaflinn gæti verið harður í horn að taka eftir að hafa lifað nokkur ár en í venjulegri sumarveðráttu ætti hann að gefa sig um síðir, svo ekki sé talað um skaflinn í skálinni vestan við Kerhólakamb sem alltaf er þrautseigur, lengi eftir að vera orðinn lítill.

Að þessu sinni birti ég myndir aftur til ársins 2012. Serían nær hinsvegar aftur til 2006 og má sjá þær allar í Esju-myndalbúmi hér https://emilhannes.blog.is/album/esja_i_april/

ATH. Sé bloggfærslan skoðuð í síma er betra að snúa honum á hlið svo myndirnar birtist heilar.

Esja 6. apríl 2023 Esja 6april2022 1500px

Esja 6. apríl 2021Esja 9. april 2020Esja 5. apríl 2019Esja 6. apríl 2018Esja 1. apríl 2017Esja 4. apríl 2016Esja 1. apríl 2015Esja 3. apríl 2014Esja 3. apríl 2013Esja 2. apríl 2012


Reykjavíkurhiti 2022 í súluriti

Hitafar í Reykjavík var nokkuð upp og ofan á árinu 2022 sem er í sjálfu sér ekkert óvenjulegt en helst eru það síðustu tveir mánuðirnir sem skera sig meira úr en aðrir, eins og sjá má á meðfylgjandi súluriti sem ég hef föndrað saman og sýnir sýnir hitafar mánaðanna. Bláu súlurnar standa fyrir meðalhita áranna 1991-2020, sem nú telst vera opinbert viðmiðunartímabil, en rauðleitu súlurnar standa fyrir hið nýliðna ár.

Meðalhiti 2022 súlur

Þarna má sjá að árið hófst á sæmilega hlýjum janúar en síðan tók við kaldur og illviðrasamur febrúar sem auk þess einkenndist af erfiðum snjóþyngslum í borginni. Svo kom mars með ágætis hlýindum en þeim fylgdi reyndar metúrkoma fyrir marsmánuð í borginni. Áfram var fremur hlýtt út vorið en um miðjan júní kárnaði gamanið því sumarhitar náðu sér varla á strik fyrr en komið var fram í september, sem endaði frekar hlýr. Októberhitinn var alveg í meðallagi, en þá tók við afskaplega hlýr og þægilegur nóvember sem meira að segja var ögn hlýrri en október. Góðviðri hélt áfram í desember en um þann 10. hófst þessi óvenjulegi kuldakafli sem hélst út árið samhliða háum loftþrýstingi og sólbjartri tíð sem sló út fyrri desembersólarmet í þessum annars dimma mánuði. Það er kannski ekki búið að gefa það út opinberlega en svo virðist sem þetta hafi verið kaldasti desember í Reykjavík síðan 1916, sem var jafn kaldur með meðalhita upp á -3,9 stig. Snjórinn lét hins vegar ekki sjá sig í borginni þetta haustið fyrr en föstudagskvöldið 17. desember og hélst með viðbótum út árið.

Þessi kaldi desember er merkilegur því hann sýnir að enn getur orðið mjög kalt hér á landi þrátt fyrir hlýrra veðurfar á þessari öld. Miðað við aðra almanaksmánuði þá má finna sambærilega eða ögn kaldari mánuði þegar kaldast var á seinni hluta síðustu aldar, eins og janúar og febrúar 1979 og svo janúar 1984. Desember 1973 var fram að þessu kaldasti desember á seinni áratugum en meðalhitinn var þá (-3,7 °C).

Svo er það árshitinn. Hann var, þrátt fyrir þennan kalda desember, í meðallagi miðað við viðmiðunartímabilið 1991-2020 eða 5,1 stig, eftir því sem ég fæ út. Þetta er vissulega eitthvað kaldara miðað við hitann það sem af er öldinni, en sögulega séð bara nokkuð gott og á sömu slóðum og þegar hlýjast var á síðustu öld - sem elstu borgarar ættu að muna ágætlega.

- - -

Höfundur þessarar bloggfærslu er áhugamaður um veðurfar og er sjálfmenntaður heimilisveðurfræðingur (hvað sem það þýðir).


Hafíslágmark ársins sætir litlum tíðindum

Hafísmynd

September er sá mánuður ársins sem hafís á Norðurslóðum er minnstur yfir árið. Þá lýkur sumarbráðnun og nýr ís fer að myndast. Lágmarkið að þessu sinni ber ekki þess merki að ísinn sé í það krítísku ástandi að íslaust Norður-Íshaf í sumarlok sé í sjónmáli á næstu árum. Vissulega voru uppi vangaveltur á sínum tíma um að slíkt gæti verið yfirvofandi eða ætti jafnvel þegar að hafa gerst. Þær spár, eða hvað sem mætti kalla þær, lituðust af þeirri miklu bráðnum og hnignun ísbreiðunnar sem átti sér sér stað einstök sumur. Fyrst sumarið 2007 og svo 2012 en það sumar á enn metið í lágmarksútbreiðslu í sumarlok. Þess á milli hefur ástandið vera upp og ofan en þó þannig að öll árin eftir 2007 hefur ísinn verið minni í lok sumars en öll árin þar á undan svo langt sem menn þekkja. Að minnsta kosti frá árinu 1979 þegar nákvæmar gervihnattamælingar hófust og líklegast mun lengur.

Hafíslágmörk 2000-2022Hafíslágmark ársins var að þessu sinni 4,68 milljón ferkílómetrar sem er í 12. sæti yfir lægstu lágmörk sem mæld hafa verið. Þetta er lítið eitt minna en í fyrra, 2021, og á svipuðum nótum og lágmörkin 2008, 2010, 2017 og 2018. Sem fyrr segir á árið 2012 lágmarksmetið (3,39 millj.km2) í öðru sæti er árið 2020 (3,82 millj.km2). Á línuritinu sést hversu ísinn hefur minnkað heilt yfir frá því um aldamótin. Aðallega þó fram til ársins metársins 2012 en eftir það er ekki um mikla þróun að ræða. Til að fá samanburð við tímann fyrir aldamót set ég inn rauða línu sem sýnir meðallágmark áranna 1979-2010 skv. NSIDC.

Hafís 18. sept 2022

Á mynd af ísbreiðunni, sem unnir er af Háskólanum í Bremen, lítur hafíslágmarkið 2022 nokkuð hefðbundið út. Ísinn hefur hörfað vel frá ströndum Síberíu og Alaska og eru stór opin svæði þar. Á Svalbarða var sumarið hlýtt og þar hefur ísinn hörfað vel frá norðurströndum. Siglingaleiðin norður fyrir Síberíu, norðausturleiðin, virðist greiðfær en meiri tíðindum sætir að norðvesturleiðin í gegnum Kanadísku heimskautaeyjarnar er einnig galopin um hin breiðustu sund en ekki bara gegnum þröngu krókaleiðina sunnar sem Amundsen sigldi um fyrstu manna árin 1903-1906.


Hvernig kemur Esjan undan vetri?

Samkvæmt rótgróinni venju er komið að hinum árlega samanburði á snjóalögum í Esju sem felst í því að taka mynd af Esjunni þegar skyggni leyfir fyrstu dagana í apríl og bera saman við sambærilegar myndir fyrri ára. Frá því árið 2013 hafa Esjuskaflar séðir frá borginni verið nokkuð lífseigir og haldið velli öll árin nema árið 2019. Hinsvegar hurfu allir skaflar fyrsta áratug þessarar aldar og er það lengsta slíka tímabil sem vitað er um. Ekki er þó mikill munur á hitastigi tveggja fyrstu áratuganna en auk hitans þá hafa úrkomusamir vetur og sólarlítil sumur sín áhrif.

Að þessu sinni var veturinn óvenju úrkomusamur í Reykjavík og reyndar sá úrkomumesti sem mælst hefur. Þótt sú úrkoma hafi fallið á ýmsu formi þá upplifðu borgarbúar óvenju mikinn snjó og erfiða færð seinni hluta vetrar. Esjan fer ekki varhluta af þessu því skaflar eru þar nokkuð öflugir í bland við fínlegri leifar snjókomu sem féll nú fyrir nokkrum dögum samhliða því er kólna tók í veðri eftir ágætis hlýindi og rigningar undir lok marsmánaðar. Hvort snjórinn hverfi að þessu sinni kallar á nokkur spurningarmerki að venju. Ekki hvarf snjórinn alveg í fyrra þrátt fyrir tiltölulega lítinn snjó á sama tíma og því ekki við miklu að búast í ár. Sumarið var líka ansi lengi að ná sér á strik í fyrra en það gengur ekki ef allir skaflar eiga að bráðna alveg.

Að þessu sinni birti ég myndir síðustu 10 ára. Serían nær hinsvegar aftur til 2006 og eru allar myndirnar geymdar í Esju-myndalbúmi hér https://emilhannes.blog.is/album/esja_i_april/

Esja 6. apríl 2022

Esja 6. apríl 2021

 Esja_9april2020_1500px

Esja 5. apríl 2019

 Esja 6. apríl 2018

Esja 1. apríl 2017

Esja 4. apríl 2016

Esja 1. apríl 2015

Esja 3. apríl 2014

Esja 3. apríl 2013

 


Skurðpunktabókin

Augl_DSC1396

Hvernig er umhorfs nákvæmlega á 65,0000°N og 18,0000°W, eða á öllum þeim 23 stöðum hér á landi, þar sem lengdar- og breiddarbaugar skerast? Allt um það í þessari óvenjulegu bók Skurðpunktar, sem sjálfur bloggarinn á þessari síðu tók saman og gaf út fyrr á þessu ári.

Um Ísland liggja ellefu lengdarbaugar og þrír breiddarbaugar innan strandlengjunnar. Við gerð bókarinnar var lagst í mikil og miserfið ferðalög til að heimsækja alla þessa skurðpunkta en umhverfi þeirra gefur vissan þverskurð af landinu og náttúrufari þess. Sá fyrsti var heimsóttur sumarið 2013 en verkefnið tók nokkur ár og var sá síðasti heimsóttur sumarið 2020. Staðirnir eru auðvitað misaðgengilegir en kannski ekki allir tilkomumiklir út frá hefðbundnum skilgreiningum. Þeir fá þó hér sinn sess sem fulltrúar hinnar almennu náttúru sem ávallt er merkileg á sinn hátt. Sjón er sögu ríkari! Bókin er fáanleg í flestum betri bókabúðum.

Skurðpunktakort

Skeidarssandur

65n22w_gps

Bok-opna2

Bok-opna1


Hafíslágmarkið nokkuð fjarri meti að þessu sinni

Eins og venjulega í september þá hefur hafísinn á norðurslóðum nú náð sínu árlega lágmarki í útbreiðslu eftir bráðnun sumarsins. Ekki verður sagt að lágmarkið í ár sæti einhverjum tíðindum nema þá helst hversu miklu munar frá árinu í fyrra þegar lágmarkið var það næst lægsta frá upphafi mælinga. Þannig mældist minnsta útbeiðslan í fyrra 3.824 þús km2 en nú í ár þann 16. september mældist hún 4.724 þús km2 sem er munur upp á akkúrat 900 þús km2, samkvæmt tölum Bandarísku hafísmiðstöðvarinnar NSIDC. Eitthvað lengra er síðan í metið frá 2012 þegar útbreiðslan þá um haustið fór niður í 3.387 þús km2.

NSIDC_linurit lagmark 2021

Sé miðað við öll ár frá upphafi nákvæmra mælinga árið 1979 endaði lágmarkið í ár einungis í 12. sæti. Hafa má þó í huga að öll árin fyrir 2007 mældist útbreiðslan meiri, og stundum töluvert meiri, sérstaklega eftir því sem við förum lengra aftur í tímann. Fyrir aldamótin 2000 fór lágmarksútbreiðslan yfirleitt ekki undir 6000 þús km2 og á níunda áratug síðustu aldar var lágmarkið að dóla sér í kringum 7000 þús km2, þannig að töluvert er í hafísmagn fyrri og kaldari tíma.

Þessi hafísútbreiðsla þarf þó ekkert að vera merki um að eitthvað bakslag sé í vændum enda spila veðuraðstæður mikið inn í þegar einstök ár eru skoðuð. Þeir miklu hitar sem víða gerðu vart við sig á meginlöndum Ameríku og Evrópu í sumar, að ógleymdu Norður- og Austurlandi, náðu hreinlega ekki alla leið norður. Eða eins og kannski má segja, þá héldu kuldapollarnir á Norður-Íshafinu sig heimafyrir að mestu með tilheyrandi sólarleysi. 

En svo má líka hafa í huga að útbreiðslan segir ekki allt. Heildarrúmál ísbreiðunnar er álíka lítil og verið hefur undanfarin ár og gamli þykki ísinn sem áður þakti stóran hluta ísbreiðunnar er að mestu horfinn. Ísinn er því að yngjast og þynnast og í samræmi við það hefur verið gefið út að hlutfall þunns 1. árs íss sé meira en áður hefur mælst. Hafísinn mun því áfram verða viðkvæmur fyrir skakkaföllum sumarlagi – en þá við annarskonar veðuraðstæður og voru nú í sumar.

sea-ice-map 2021

 

Sjá einnig:

NSIDC: http://nsidc.org/arcticseaicenews/

MONGABAY: https://news.mongabay.com/2021/09/researchers-express-alarm-as-arctic-multiyear-sea-ice-hits-record-low/


Skurðpunktar - þar sem lengdar- og breiddarbaugar skerast á Íslandi

Skurðpunktakort

Eitt er að fá skrítnar hugmyndir og annað er að framkvæma þær. Og þegar búið er að framkvæma þær, er síðasta áskorunin eftir sem að gera eitthvað úr öllu saman til að festa verkið í sessi svo aðrir geti furðað sig á tiltækinu. Kannski á þetta við um uppátæki mitt sem var að eltast við þá staði á landinu þar sem lengdar- og breiddarbaugar skerast í heilum og óskiptum tölum - eða Skurðpunkta eins og ég kalla þessa staði sem eru alls 23 hér á landi innan strandlengjunnar.

 

Sprengisandur

Eins og gefur að skilja kölluðu þessir skurðpunktaleiðangrar á mikil ferðalög og göngur enda liggja staðirnir afar misvel að vegakerfi landsins. Ég var reyndar ekkert að flýta mér um of í þessu verkefni. Heimsótti fyrstu punktana sumarið 2013 og kláraði þann síðasta á Sprengisandi sumarið 2019, en þaðan er einmitt myndin hér að ofan.

Áður en hafist var handa hafði ég undirbúið mig vel, kynnt mér staðina sem best ég mátti og látið útbúa gulan ferning 40x40cm að stærð sem hægt væri að taka í sundur með einföldum hætti og fella ofan í bakpoka. Guli ferningurinn var þannig notaður til að afmarka skurðpunktinn á hverjum stað en var um leið einskonar rammi utan um sjálfa skurðpunktamyndina sem tekin er niður á jörðina, samanber þessar tvær myndir sem teknar eru nákvæmlega 65,0000°N/19,0000°W og 66,0000°N/17,0000°W.

2 skurðpunktamyndir

Með þessu fæst ágætis kerfisbundinn þverskurður af landinu, jafnt grónu landi sem og hinum tilkomumiklu auðnum landsins, en svo vill reyndar til að engin skurðpunktanna lendir á jökli.

Margt er auðvitað hægt að segja um staðina og öll ferðalögin og það hefur vissulega verið gert. Mér hlotnaðist til dæmis sá heiður að fá heilsíðuviðtal í sjálfu Morgunblaði allra landsmanna þann 31. mars síðastliðinn. Tilefnið var ekki bara verkefnið sem slíkt, heldur líka útkoma bókarinnar Skurðpunktar sem ég setti saman en þar eru punktarnir teknir fyrir einn af öðrum í máli og myndum - og auðvitað kortum. Allt heilmikið verk sem skýrir að hluta hversu lítið hefur verið um bloggfærslur hjá mér undanfarin misseri. Jafnvel í miðjum eldsumbrotum!

Ekki nóg með það því núna stendur einmitt yfir sýning í Gallery Grásteini á Skólavörðustíg 4, þar sem öllum myndunum er raðað saman í þeirri röð sem þeir koma fyrir í landinu. Fyrst um sinna er bókin einungis fáanleg á sýningunni en dettur væntanlega inn í bókabúðir fljótlega. Þar með ætti ég að vera búinn að gera sæmilega úr öllu saman og festa verkið í sessi svo aðrir geti furðað sig á tiltækinu, en kannski ekki síður fengið splunkunýja og raunsæja sýn á landið okkar. Sjón er sögu ríkari, svo maður bregði fyrir sig auglýsingamáli.

Skurdpunktar_1920x1080

Skilti skolavorðustigur

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband